Bosse BIG 2

Um helgina fór fram sumar sýning HRFÍ og voru 8 Border Terrier hundar skráðir til leiks á sunnudeginum, 4 rakkar og 4 tíkur. Á meðal skráðra hunda voru Bosse, Ixilandia Jón Oddur og Bjarkar Rán í minni eigu auk þeirra Ixilandia Amigo Lucky Day/ Marteinn og Ixilandia Chasing My Tail/ Táta úr minni ræktun.

Jón Oddur var fyrstur inn í hring og sýndi sig afar vel. Dómaranum Per Kr. Andersen leist ákaflega vel á hann og fannst hann samsvara sér ótrúlega vel miðað við aldur (14 mánaða) og bera stærð sína vel. Hann fékk excellent og vann ungliðaflokkinn. En með honum í flokki var Bjarkar Rökkvi sem fékk einkunina Very Good.

Marteinn var eini rakkinn í Opnum keppnisflokki, hann var að mæta í fyrsta sinn á sýningu og þurfti mikið að skoða umhverfið. Dómaranum leist einnig mjög vel á hann, fannst hann þó þurfa að grennast örlítið og sýna sig betur í hringnum. Hann fékk einkunina Very Good. En mjög lofandi dóm og það verður spennandi að fylgjast með honum í framtíðinni.

Bosse var eini rakkinn í Meistaraflokki. Hann var í miklu sýningarstuði og hefur aldrei sýnt sig eins vel. Hann átti hringinn og rúmlega það og gerði allt sem ætlast var til af honum. Dómarinn var virkilega hrifinn af honum og fannst hann vera af fullkomni stærð, með einstakt geðslag og fallega byggingu. Bosse fékk að sjálfsögðu excellent og varð besti rakki tegundar.

Næst inní hring var Rán, sem átti einnig góðan dag. En hingað til hefur henni fundist sýningarhringurinn leiðinlegur staður en núna ákvað hún að sýna sig. Dómarnum fannst hún virkilega falleg og fíngerð, enda varla annað hægt. Hún fékk flotta umsögn og excellent. Auk þess að vinna keppnisflokkinn, en með henni í hringnum var systir hennar Bjarkar Reyndís sem fékk einkunina Good.

Táta fylgdi næst á eftir, en hún var að mæta á sína fyrstu sýningu síðan hún var hvolpur. Hún hefur bætt á sig þó nokkuð mörgum kílóum og dómarnum fannst nú nóg um, svo hún er á leiðinni í átak fyrir næstu sýningu. Þá var dómarinn heldur ekki sáttur með að feldurinn hennar hefur verið rakaður, í stað þess að vera snyrtur og gaf hann henni þess vegna einkunina Good. En sagði sjálfur að hún væri mjög lofandi og gaf henni flottan dóm og sagðist vonast til að sjá hana í hringnum seinna í flottu formi.

Að lokum fór fram keppni um besta hund tegundar og keppti Bosse þar við Heklu/Eyju sem vann tíkurnar. Bosse sýndi sig vel og dómarinn var ekki lengi að ákveða sig hvort þeirra fengi 1. sætið, en það kom í hlut Bosse! Hann hefur því fengið nýjan titil RW-13 sem stendur fyrir Reykjavík Winner  2013, en þessi sýning var svokölluð Winner sýning sem verður haldinn árlega.

Seinna á sunnudeginum fóru úrslitin svo fram þar sem Bosse keppti við aðra hunda í tegundarhópi 3. Hann hélt áfram umteknum hætti og sýndi sig ákaflega vel og naut sín greinilega á rauða dreglinum. Hann endaði að lokum sem annar besti hundur í tegundarhópi 3. Það voru því þreyttir en sælir hundar og menn sem komu heim af þessari sýningu.

Næstu sýningar er þó beðið með óþreyju þrátt fyrir að enn sé langt í hana en þar munu hvolparnir undan Rökkurdís og Bosse geta keppt, auk þess sem Bosse hefur tækifæri á að keppa um siðasta alþjóðlega meistarastigið sem hann þarf til að verða alþjóðlegur meistari.

bossebig2

Við Bosse ágætlega sátt með annað sætið!

Þá er rétt á að benda á að þeir sem ætla að taka þátt í næstu sýningu ættu að reyta hundana niður um miðjan júlí. Þá eru einnig komnar nýjar myndir á síðuna.

Bestu kveðjur,

Jónína Sif

 

Ixilandia Hrafntinna og Hrafnkatla

Þær eru sprækar systurnar, enda orðnar 6. vikna og trúa því sjálfar að þær séu fullvaxnar og geti allt. En þar fer nærri því þær eru afskaplega duglegar og litlu munar að þær séu orðnar húshreinar. Þær hafa þó ekki áttað sig á að tær eru ekki einhver hræðileg skrímsli sem réttast er að ráðast á við hvert tækifæri.

Rökkurdís sinnir þeim vel og er ennþá stútfull af mjólk, Bosse er hinsvegar ennþá á varðbergi gangvart þeim en er þó duglegur að leika við þær, sérstaklega úti.

En að tilefni ,,afmælisins” tók ég nokkrar myndir og þær eru að finna á myndasíðunni.

aDSC_0460

Myndir

Vildi bara benda ykkur á að nýjar myndir af hundunum birtast reglulega undir flipanum Myndir.

Þessi kom ný inn á síðuna í dag. En litlu pæjurnar eru farnar að opna augun og því styttist sennilega í að lætin fari að aukast í hvolpakassanum.

DSC_0332

Hvolparnir fæddir!

DSC_0239Laugardaginn 6. apríl gaut Rökkurdís þremur hvolpum. Tveimur tíkum og einum rakka. Því miður þá lifði rakkinn ekki. En tíkunum heilsast vel, þær stækka hratt og eru kröftugar. Svo skemmtilega vill til að þær eru báðar Blue and tan á litinn, sem er mjög ólgengt hér á landi og eru fyrstu tíkurnar fæddar hér á landi af þessu litar afbrigði.

Rökkurdís sinnir þeim af stakri prýði og er mikil mamma, það er rétt núna rúmri viku eftir að þær fæddust sem hún gefur sér tíma til að stíga upp úr hvolpakassanum og litast um á heimilinu. En fyrstu dagana var varla hægt að ná henni uppúr kassanum til að fara út að pissa.

Þeir sem hafa áhuga á hvolpi úr þessu goti geta sett sig í samband við mig á netfangið joninasif(hja)gmail.com DSC_0285

 

 

 

Bosse BOB og BIG 3

Betra seint en aldrei sagði einhver og því er ekki úr vegi að senda loksins inn upplýsingar frá síðustu sýningu sem fór fram helgina 23 og 24 febrúar. En Bosse átti ákaflega góðan dag og varð besti hundur tegundar með alþjóðlegt meistarastig. Hann varð svo 3 í tegundarhóp 3. Dómurinn sem hann fékk var vægast sagt mjög flottur. Það var þó ekki auðsótt, því dómarinn Hanne Laine Jensen frá Danmörku var mjög ströng og gjafmild á bláuborðana og fengu flestir hundarnir að finna fyrir því þar á meðal Rán, sem fékk very good, en ákaflega fína umsögn.  bossesynfeb2013

Wilma hins vegar mætti á svæði nokkrum (eða mörgum) kílóum of þung, en engu síður falleg og sjarmerandi. Dómarnum leist vel á hana en hafði orð á auka kílóunum og kallaði hana ,,lilla matsvin” og kleyp í fellingarnar en gaf henni engu að síður excellent og heiðursverðlaun. Hún fór því ningar og keppti um besta öldung sýningar en náði ekki sæti í þeirri keppni. En kannski næst, ef einhver kíló verða farin…

Annars er það að frétta að allt bendir til þess að Rökkurdís eigi von á hvolpum í apríl byrjun. Hún er farin að þykkna örlítið og lætur lítið fyrir sér fara í leik og starfi en vill mikla ást og helst vera í fanginu á okkur allan daginn. En frekari fréttir af henni koma þegar nær dregur.

Þá er réttast að geta þess að hvolparnir undan Wilmu og Bosse urðu árs gamlir núna á laugardaginn og af því tilefni óska ég þeim og eigendum þeirra innilega til hamingju með afmælið.

Bestu kveðjur,

Jónína Sif

Gleðilegt nýtt ár

Framundan er spennandi ár. Helst ber að nefna að tvö got eru væntanleg á árinu. Annarsvegar undan Rökkurdís og Bosse sem ætti að líta dagsins ljós í vor, ef allt gegnur eftir og svo gerum við ráð fyrir að para Rán í haust.

Næst á dagskránni er þó febrúarsýning HRFÍ, hún nálgast óðum og því er um að gera að fara að snyrta hundana og gera þá tilbúna fyrir sýninguna.

Þeir sem vilja fá frekari upplýsingar um væntanleg got geta haft samband við Jónínu Sif: joninasif(hjá)gmail.com.

Nýárs kveðja,

Jónína Sif og hundarnir

Lagotto: fyrsta gotið fætt

Það er gaman að segja frá því að fyrsta Lagotto gotið fæddist þann 28. sept 2012. Í gotinu komu 11 hvolpar, einn kvaddi heiminn tveimur dögum seinna en hinir eru allir ákaflega sprækir. í gotinu eru 5 rakkar og 5 tíkur. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér þetta got nánar geta haft samband við Hönnu sleggjubeina@gmail.com eða á www.sleggjubeina.weebly.com

Á sama tíma er leiðinlegt að segja frá því að ekkert kom útúr gotinu hjá Rökkurdís og Bosse. Pörunin verður endurtekin við fyrsta tækifæri.

 

Lagotto: Væntanlegt, fyrsta got sinnar tegundar á Íslandi!

Lagotto Romagnolo, ítalskir sveppaleitarhundar. Bráðskemmtilegir og eldklárir fjölskyldu- og vinnuhundar af meðalstærð. Þessi hundategund eru oftar en ekki á lista yfir þá hunda sem valda hvað síst ofnæmi og fara lítið úr hárum. Móðirin er íslenskur sýningameistari og faðir hefur verið sýndur í opnum flokki hérlendis með toppárangri. Hann hefur að auki farið í gegnum skapgerðarmat, hlýðni- og blóðporapróf. Þau eru bæði mjaðamynduð og augnskoðuð.
Upplýsingar í s. 694-3194 eða á sleggjubeina@gmail.com