Bosse BIG 2

Um helgina fór fram sumar sýning HRFÍ og voru 8 Border Terrier hundar skráðir til leiks á sunnudeginum, 4 rakkar og 4 tíkur. Á meðal skráðra hunda voru Bosse, Ixilandia Jón Oddur og Bjarkar Rán í minni eigu auk þeirra Ixilandia Amigo Lucky Day/ Marteinn og Ixilandia Chasing My Tail/ Táta úr minni ræktun.

Jón Oddur var fyrstur inn í hring og sýndi sig afar vel. Dómaranum Per Kr. Andersen leist ákaflega vel á hann og fannst hann samsvara sér ótrúlega vel miðað við aldur (14 mánaða) og bera stærð sína vel. Hann fékk excellent og vann ungliðaflokkinn. En með honum í flokki var Bjarkar Rökkvi sem fékk einkunina Very Good.

Marteinn var eini rakkinn í Opnum keppnisflokki, hann var að mæta í fyrsta sinn á sýningu og þurfti mikið að skoða umhverfið. Dómaranum leist einnig mjög vel á hann, fannst hann þó þurfa að grennast örlítið og sýna sig betur í hringnum. Hann fékk einkunina Very Good. En mjög lofandi dóm og það verður spennandi að fylgjast með honum í framtíðinni.

Bosse var eini rakkinn í Meistaraflokki. Hann var í miklu sýningarstuði og hefur aldrei sýnt sig eins vel. Hann átti hringinn og rúmlega það og gerði allt sem ætlast var til af honum. Dómarinn var virkilega hrifinn af honum og fannst hann vera af fullkomni stærð, með einstakt geðslag og fallega byggingu. Bosse fékk að sjálfsögðu excellent og varð besti rakki tegundar.

Næst inní hring var Rán, sem átti einnig góðan dag. En hingað til hefur henni fundist sýningarhringurinn leiðinlegur staður en núna ákvað hún að sýna sig. Dómarnum fannst hún virkilega falleg og fíngerð, enda varla annað hægt. Hún fékk flotta umsögn og excellent. Auk þess að vinna keppnisflokkinn, en með henni í hringnum var systir hennar Bjarkar Reyndís sem fékk einkunina Good.

Táta fylgdi næst á eftir, en hún var að mæta á sína fyrstu sýningu síðan hún var hvolpur. Hún hefur bætt á sig þó nokkuð mörgum kílóum og dómarnum fannst nú nóg um, svo hún er á leiðinni í átak fyrir næstu sýningu. Þá var dómarinn heldur ekki sáttur með að feldurinn hennar hefur verið rakaður, í stað þess að vera snyrtur og gaf hann henni þess vegna einkunina Good. En sagði sjálfur að hún væri mjög lofandi og gaf henni flottan dóm og sagðist vonast til að sjá hana í hringnum seinna í flottu formi.

Að lokum fór fram keppni um besta hund tegundar og keppti Bosse þar við Heklu/Eyju sem vann tíkurnar. Bosse sýndi sig vel og dómarinn var ekki lengi að ákveða sig hvort þeirra fengi 1. sætið, en það kom í hlut Bosse! Hann hefur því fengið nýjan titil RW-13 sem stendur fyrir Reykjavík Winner  2013, en þessi sýning var svokölluð Winner sýning sem verður haldinn árlega.

Seinna á sunnudeginum fóru úrslitin svo fram þar sem Bosse keppti við aðra hunda í tegundarhópi 3. Hann hélt áfram umteknum hætti og sýndi sig ákaflega vel og naut sín greinilega á rauða dreglinum. Hann endaði að lokum sem annar besti hundur í tegundarhópi 3. Það voru því þreyttir en sælir hundar og menn sem komu heim af þessari sýningu.

Næstu sýningar er þó beðið með óþreyju þrátt fyrir að enn sé langt í hana en þar munu hvolparnir undan Rökkurdís og Bosse geta keppt, auk þess sem Bosse hefur tækifæri á að keppa um siðasta alþjóðlega meistarastigið sem hann þarf til að verða alþjóðlegur meistari.

bossebig2

Við Bosse ágætlega sátt með annað sætið!

Þá er rétt á að benda á að þeir sem ætla að taka þátt í næstu sýningu ættu að reyta hundana niður um miðjan júlí. Þá eru einnig komnar nýjar myndir á síðuna.

Bestu kveðjur,

Jónína Sif

 

Ixilandia Hrafntinna og Hrafnkatla

Þær eru sprækar systurnar, enda orðnar 6. vikna og trúa því sjálfar að þær séu fullvaxnar og geti allt. En þar fer nærri því þær eru afskaplega duglegar og litlu munar að þær séu orðnar húshreinar. Þær hafa þó ekki áttað sig á að tær eru ekki einhver hræðileg skrímsli sem réttast er að ráðast á við hvert tækifæri.

Rökkurdís sinnir þeim vel og er ennþá stútfull af mjólk, Bosse er hinsvegar ennþá á varðbergi gangvart þeim en er þó duglegur að leika við þær, sérstaklega úti.

En að tilefni ,,afmælisins” tók ég nokkrar myndir og þær eru að finna á myndasíðunni.

aDSC_0460