Grein um Border Terrier

Grein sem birtist í Sámi, 2.tbl, 32. árg. ágúst 2010.

Höfundur: Jónína Sif Eyþórsdóttir

Útlit 

Border terrier eru litlir en kröftugir veiðihundar, sem voru í fyrstu notaðir til þess að veiða ref og hefur það sett mark sitt á útlit tegundarinnar. Border Terrier þarf að vera sterkbyggður en smár þar sem hundurinn þarf að komst ofan í gjótu refsins án þess að því fylgi vandræði og má hann því ekki vera of breiður yfir axlir né rifboga. Kjálkinn þarf að vera sterkur og tennurnar eiga að vera stórar miðið við stærð hundsins sem og nefið sem border terrier notar mikið í veiði og vinnu. Höfuðlagið sjálft er svo eitt af sérkennum tegundarinnar, en það á að líkjast höfði á otri, en auk höfuðsins er skottið eitt af einkennum tegundarinnar en það á að vera í styttralagi, þykkt við skottrótina en síðan mjókkandi. Skotið er mikilvægt öryggistæki þar sem það er ,,handfang“ til að ná hundi upp úr holu sem hann mögulega situr fastur í. Þess vegna er mikilvægt að skottið sé sterkt.

Í ræktunarmarkmiði tegundarinnar kemur fram að þeir eigi að geta hlaupið með hestum, og krefst það mikils af svo smárri tegund. Fæturnir þurfa því að vera sterkbyggðir og nokkuð langir til að þeir geti komist hratt yfir ójafnt landslag.

Feldurinn er snöggur og grófur. Ytri hárin eru lengri og harðari en undirfeldurinn er þéttur og mjúkur og vernda hundinn vel gegn veðrum og vindum. Skinnið er þykkt og laust og veitir því hundinum vernd gegn árásum annarra dýra sem og veðurs. Einnig er feldurinn vatnsheldur, og eru margir Border Terrier hundar ákaflega góðir á sundi. Fimm litir hafa einkennt tegundina: Grizzel and Tan, Blue and Tan, Weathen, Red og saddleback. Saddleback hefur verið útdauður lengi, og því miður virðist það vera sem svo að Weathen og Red séu einnig á sömuleið. Allir þessir litir hafa það þó sammerkt að á skottinu er lítil silfurlituð lína.

Uppruni

Border terrier er upprunin frá landamærum Englands og Skotlands, nánar tiltekið frá Coquetdale, þar sem þeir voru notaðir við veiðar. Er talið að þeir séu afkomendur tegundar sem kölluð var Whitlee og voru dugmiklir veiðihundar. Sögu tegundarinnar má rekja aftur til ársins 1817 þó svo að þeir hafi ekki sést á sýningum fyrr en 1881. Fyrsta tilraun til að skrá tegundina undir Breska hundaræktarfélaginu árið 1913 mistókst vegna óróa í Englandi, í aðdraganda fyrri heimstyraldarinnar og var tegundin ekki skráð fyrr en 1920. 

Tegundin varð fljótlega vinsæl vegna dugnaðar sinnar við veiðar og óttaleysi. Einnig þótti það kostur hve tryggir þeir voru eigenda sínum og hversu auðþjálfaðir þeir voru. Þeim lyndir oftast vel við hunda sem þeir þurfa að vinna með, enda eru þeir oftast látnir veiða í hópum. Þeir eru hinsvegar mjög sjálfstæðir og verja sig ef þeim finnst þeim vera ógnað eða ef hópnum er ógnað. 

Svíþjóð er annað  heimaland tegundarinnar en fyrsti Border Terrierinn kom þangað  1934 og eru þeir fyrsta terrier tegundin sem þar nemur land. Urðu þeir fljótt vinsælir sem veiði- og sýningar hundar.

Tegundin er heilsuhraust og langlífi, og nánast ekkert hefur borið á arfgengum kvillum í tegundinni. Þeir jafna sig fljótt á meiðslum sem er mikilvægt fyrir hunda sem notaðir eru í veiði og eru almennt mjög harðir af sér. Þeir fylgja eiganda sínum í einu og öllu en eru ekki mikið gefnir fyrir ókunnuga í fyrstu, nema þegar börn eiga í hlut, en Border Terrier eru ákaflega hændir að börnum. 

Umhirða 

Feldhirða á Border Terrier er afskaplega lítil og einföld. Tvisvar til þrisvar á  ári þarf að reyta feldinn á þeim. Það er einföld aðgerð, en vanda þarf vel til verka ef sýna á hundinn og þá sérstaklega þegar höfuðið er snyrt. Annars er gott að  bursta af og til yfir feldinn til að losna við laus hár. 

Border Terrier hunda þarf ekki að baða, þar sem grófi feldurinn hefur þann eiginleika að eiga auðvelt með að losa sig við óhreinindi. En sé það óumfýjanlegt er mikilvægt að reyna nota sem minnst af sjampói þar sem það hefur oft mýkjandi áhrif á feldinn.

Hreyfing og vinna

Border Terrier þolir mikla hreyfingu og hefur verulega gaman af allri útiveru. Þeir eru líka fljótir að læra og eru mjög vinnusamir. Það er því auðvelt og skemmtilegt að kenna þeim nýja hluti og vinna með þeim. Þar sem þetta er tegund sem er mikið notuð í veiði eru þeir einnig með gott ,,sporanef“ og eiga auðvelt með að rekja slóð. 

Hundar af þessari tegund geta tekið sér flest allt fyrir ,,hendur“ og hafa verið  notaðir með góðum árangri í hlýðni, agility, heel work to music og sem heimsóknar hundar, til dæmis hjá Rauða krossinum.
Saga tegundarinnar á Íslandi 

Fyrstu Border Terrier hundarnir komu til landsins haustið 2002 það voru tíkurnar Örvikens Pimpinella og Örvikens Robinia. Fyrsti rakkinn kom svo vorið 2004 og var það Rockamore Magician og var hann faðir af fyrstu þremur Border Terrier gotunum á Íslandi, en fyrsta gotið leit dagsins ljós í janúar 2005. Fyrsti íslenski meistarinn var Örvikens Pimpinella, árið 2003 og fyrsti alþjóðlegi meistarinn var Sólskinsgeisla Kvöld Rökkurdís, árið 2009.

Alls hafa 10 hundar af þessari tegund verið fluttir inn til landsins það eru þau: Sub Terram Business Woman, Örvikens Monke, Currabell Dark Lord, Currabell Mystic Legend/ Mystic, Sub Terram Dream In Color, Ajax z Tyrolské obory  og Blaydon Blue Belle, auk þeirra sem fyrst voru upptalin.

Samtals hafa verið skráð 14 got hér á landi og úr þeim komið samtals 56 hvolpar.

Nánari upplýsingar:

Góðar bækur um Border Terrier:

Border Terrier (Best of Breed) eftir Betty Judge.

Border Terrier (Comprehensive Owners Guide) eftir Muriel P. Lee.

Border Terriers Today eftir Anne Roslin-Williams.

Ræktendur sem hafa haft tvö got eða fleiri:

Guðrún Hafberg með  Sólskinsgeislaræktun: www.solskinsgeisla.com

Jónína Sif með Ixilandia ræktun: www.ixilandia.tk

Þórhildur Bjartmarz með Sturlungaræktun: hundalif@hundalif.is

Aðrir ræktendur sem hafa skipulagt fleiri got:

Ingibergur G. Þorvaldsson með hvar er fuglinn ræktun: www.hvarerfuglinn.net

Ýmsar gagnlegar upplýsingar um tegundina má finna á heimasíðunni:

 http://www.midland-border-terrier-club.org.uk, sem og á heimasíðum ræktenda og víða á netinu.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *