Risa Smár

Border Terrier eru smáir en sterkir hundar, með mikinn námsvilja. Þeir koma upphaflega frá landamærum Englands og Skotlands þar voru þeir notaðir við veiðar enda þóttu þeir ákaflega kjarkmiklir, duglegir og vinnusamir.

Border Terrier eru mjög elskir að eiganda sínum, honum semur vel við ókunnuga en gefur sig aldrei fullkomlega að þeim. Auga þarf að hafa með Border Terrier eins og öllum öðrum hundum þegar þeir hitta ókunnuga hunda.

Border Terrier eru fjölhæfir hundar og geta tekið sér flest allt fyrir ,,hendur” Þeir eru fullkomnir fyrir grenjavinnu og veiðar á stórum og smáum dýrum. Þeir hafa ákaflega sterkt nef og eru afbragðs góðir í allri leitarvinnu, sérstaklega blóðspori. Þeir hafa verið notaðir erlendis í lögreglu og björgunar störf enda eru þeir litlir og komast allstaðar. Þeir eru kröftugir í agility og öðru svipuðu sporti. Þeir eru ákaflega hraðskreiðir og eiga að geta fylgt eftir hestum. Þeir eru áhugasamir í hlýðni og dansi endar mjög námsfúsir og fljótir að læra. Border Terrier er einnig skemmtilegur sýningar hundur, þar sem þeir eru yfirleitt sjálfsöruggir og það geislar af þeim. Border Terrier hafa einnig reynst vel sem heimsóknar hundar(meðferðarhundar) enda sýna þeir yfirvegun í kringum ókunnuga.

Border Terrier þarf örvun, honum þykir fátt skemmtilegra heldur en vera með eiganda sínum við hin ýmsu störf, hvort svo sem það eru veiðar eða önnur þjálfun. Þeir þurfa líka góða hreyfingu og flestir njóta þess að synda og hlaupa um eða leika sér með bolta eða annað dót. En sama hvað hentar eigandanum þá fylgir Borderinn alltaf með, upp á fjöll og firnindi, á línuskautum eða hlaupandi á ís, hjólandi, hlaupandi eða í göngutúr. Þeir elska að fá að hlaupa lausir í háu grasi og þúfum, þar sem þeir þurfa að stökkva upp til að komast sem hraðast yfir.

Border Terrier þykir ákaflega gott að skríða upp í rúm til eigenda sinna og helst undir sæng. Þar sem þeir eru mannelskir reyna þeir að liggja sem næst eiganda sínum og ósjaldan hvílir trýnið í hálsakoti þess sem er þeirra lukku aðnjótandi að fá að hafa þá hjá sér. Þeim þykir heldur ekki verra að fá að kúra upp í sófa meðan eigandinn horfir á fréttir eða situr yfir bíó mynd. Sé eigandinn mikið tölvusinnaður eða sitji mikið við lestur má búast við að Border Terrierinn geri allt það sem honum dettur í hug til að komast upp í fangið hjá sínum heitt elskaða eiganda. Hins vegar ef rúm, sófar og stólar eru bannstaður, liggur hann yfirleitt þétt við fætur húsbónda síns, sæll að fá að vera sem næst honum.

Border Terrier eru yfir höfuð ekki fyrirferðamiklir innan dyra heldur þveröfugt, þeir finna sér góðan stað sem er þeirra afdrep og taka því rólega, hins vegar er eins og það sé kveikt á þeim þegar þeir fara út, þá er sko gaman. Þeir eru ekki hávaðasamir hundar en þeir láta yfirleitt vita þegar fólk ber að garði. Þeir gelta yfirleitt ekki en eiga til að gefa frá sér ýmis sérkennileg tjáningar hljóð.

Border Terrier hefur sérstakann feld, en hann er mjög grófur og tvískiptur. Húðin er þykk og næstum vatnsheld hún þolir líka vel kulda og árásir rándýra. Þessi grófi feldur gerir það að verkum að þeir verða nánast aldrei skítugir þó þeir velti sér upp úr drullu, því og um leið og feldurinn þornar, rennur skíturinn af. Lítil umhirða er í kringum feldinn, aðeins þarf að reyta þá um tvisvar til þrisvar á ári. Hins vegar er gott að fara stundum yfir feldinn með greiðu, til að taka hár sem annars yrðu hárlos. Border Terrier fer öllu að jafnan ekki mikið úr hárum en þó koma tímabil yfirleitt þegar komið er að reytingu og feldurinn orðinn of síður.

Border Terrier er að öllu jafna langlíf, heilbrigð tegund og harðger. Þetta eru einstakir heimilishundar og félagar sem hafa gaman af flestu sem eigandinn tekur sér fyrir hendur.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *