Einn hvolpur úr gotinu er ólofaður. Áhugasamir hafi samband við mig í gegnum joninasif hja gmail.com.
4. vikna
Ég trúi varla að þetta sé satt! En jú hvolparnir eru orðnir 4. vikna og hafa þroskast vel. Þeir eru farnir að borða alvöru hundamat, en ekki drekka ekki bara mjólk og eru aðeins farnir að fá að fara upp úr hvolpa kassanum og vera hér frammi hjá okkur. Þeim heilsast öllum vel og bera þess öll merki að verða skemmtilegir einstaklingar í framtíðinni.
Rán er ennþá dugleg að sinna þeim og þrífur allt sem frá þeim fellur. Hún er nú líka stundum alveg til í að fá smá pásu enda eiga þeir það til að vera svolítið aðgangs harðir við hana.
Nýjar myndir eru komnar í myndaalbúmið.
Búnir að opna augun
Þá eru hvolpaskottin búin að opna augun og þá styttist í að friðurinn sé úti. Hvolparnir eru að dafna vel og Rán heldur áfram að standa sig vel í móðurhlutverkinu. Hún er þó farin að vera viljugri í að fara í göngutúra og leika aðeins við Pálínu á milli þess sem hún gefur spenna og þrífur hvolparassa.
Borið hefur á talsverðum áhuga fyrir gotinu, sem er virikilega jákvætt, enda snilldar hundar hér á ferð. Nú eru tveir hvolpar úr gotinu ólofaðir, rakki og tík, áhugasamir geta haft samband við mig í gegnum joninasif (hja) gmail.com
Viku gamlir
Þá eru hvolparnir orðnir viku gamlir. Þeir eru vel sprækir og kröftugir og Rán sinnir þeim ótrúlega vel. Hún víkur varla frá þeim og oftar en ekki er erfitt að fá hana til að koma út.
Nú bíðum við bara spennt eftir því að þeir fari að opna augun.
Annars er rétt að benda þeim sem gleymdu að skrá á sýninguna að skráningafrestur hefur verið framlengdur til kl 15:00 á morgun mánudag.
Hvolpar fæddir
Rán fór að mása og blása aðfara nótt laugardagsins 18. jan. Um klukkan 16.30 fór að bera á smá rembingi og kl 18 fór vatnið. Stuttu seinna kom fyrsti hvolpurinn í heiminn, lítill og nettur rakki. Síðan komu þeir hver af öðrum, samtals fimm hvolpar, þrír rakkar og tvær tíkur á einni klukkustund og fimmtán mínútum.
Hvolparnir voru strax mjög sprækir og fóru sjálfir á spena. Rán fór strax að sinna þeim líkt og hún hefði aldrei gert annað. Algjör fyrirmyndar mamma.
Nú þegar hafa einhverjar fyrirspurnir borist vegna gotsins, en þeir sem hafa áhuga á að bæta einum yndislegum Border Terrier í fjölskylduna geta haft samband við mig í gegnum joninasif hja gmail.com.
Væntanlegt got
Bosse 7. stigahæsti hundur ársins
Já það er orðið nokkuð langt um liðið síðan að síðasta sýning fór fram, helgina 16. – 17. nóvember og því ekki seinn vænna að henda inn smá monti.
Pálína varð aftur besti hvolpur tegundar. Hún stóð sig virkilega vel í sýningarhringnum og við vorum örlítið svekktar að fá ekki sæti í Besti hvolpur sýningar, að þessu sinni því hún er jú svo afskaplega fín.
Rán kom sá og sigraði ef svo má að orðið komast. Við höfum verið í smá vandræðum með að fá hana til að sýna sig á sýningunum – henni finnst ekkert alltof gaman að labba í hringi og vera sæt. Hún vill frekar fara út og leika sér og vesenast eitthvað. En á þessari sýningu sýndi hún allt og var ótrúlega falleg og flott. Hún endaði sem besta tík tegundar með Íslenskt og alþjóðlegt meistarastig. Þá fékk hún frábæran dóm og tapaði naumlega fyrir pabba sínum – honum Bosse í keppninni um besta hund tegundar.
En Bosse mætti á svæðið í frábæru formi og var algjörlega til fyrirmyndar. Hann varð besti rakkinn og besti hundur tegundar og fékk sitt 5. alþjóðlega meistarastig! Hann gerði svo gott um betur og varð aftur besti hundur í tegundarhópi 3.
Með þessu lauk sýningarferli hans hér á Íslandi, en eftir árið reiknast hann sem 7. stigahæsti hundurinn af öllum tegundum innan HRFÍ auk þess að vera stigahæsti Terrierinn. Ekki leiðinlegt það.
Pálína BIShv og Bosse BIG!
Vá þvílíkur dagur á hundasýningunni á enda. Við hófum leik snemma í morgun þar sem 4 hvolpar undan Bosse voru sýndir. Pálína stóð sig ótrúega vel og gerði allt eins og hún átti að gera og ekki að sjá að hún hafi verið á sinni fystu sýningu. Hún vann systkini sín og varð besti hvolpur tegundar. Í lok dags keppti hún í keppninni um besta hvolp dagsins og gerði sér lítið fyrir og vann þá keppni. Dómarinn sem dæmi tegundina, Hans van de Berg var ákaflega ánægður með hana og skrifaði meira að segja í dóminn ,,I like her a lot” auk þess að hrósa því hversu vel þjálfuð hún væri. Dómurinn hennar var í heildina frábær! Dómarinn sem dæmdi Besta hvolp dagsins var einnig mjög ánægð með hana og hrósaði henni mikið! Björt framtíð í vændum hjá Pálínu!
Næstur inn í hringinn á eftir Pálínu var Marteinn (Ixilandia Amigo Lucky Day). Hann var sýndur af Sólrún sem er fóðureigandi Ránar. Þau stóðu sig ákaflega vel og voru flott saman í hringnum. Hann fékk Very Good og góða umsögn.
Því næst var komið að Bosse (Sub Terram Apple Jack), hann átti eitt stig eftir til þess að verða Alþjóðlegur meistari og því var mikil spenna í loftinu. Hann ákvað að sýna sína bestu hlið og heillaði dómarann alveg upp úr skónum! Hann endaði sem besti rakki tegundar og fékk sitt síðasta alþjóðlega stig og er því nú kominn með nýjan titil í safnið CIB! Síðar keppti hann við bestu tík tegundar, hann sló ekkert af og var í miklu stuði og vann tegundina með stæl. Dómarinn gaf sér langa stund til að spjalla um Bosse og Pálínu en hann hreyfst mjög af þeim tveim.
Á eftir Bosse kom Rán, sem var algjörlega feldlaus að þessu sinni og setti dómarinn út á það, hann sagðist vilja hafa hana í sýninarástandi og gaf henni því very good, en flottan og lofandi dóm. Næst kom feitabollan okkar hún Táta, Honum leist ekkert á hana, fannst hún alltof feit. Það kemur að því að hún verður sýnd í sínu rétta ástandi. En dómurinn var þó góður, enda fallegur hundur undir öllu þessu spiki 😉
En dagurinn var allt í allt æðislegur enda fátt sem toppar að eiga besta hvolpinn og vinna grúbbuna. Ég er líka afskaplega ánægð með það hversu vel þau sýndu sig (eins og sjá má á næstu mynd).
Næsta sýning fer fram helgina 16. -17. Nóvember. Þeir sem vilja taka þátt í þeirri sýningu ættu að snyrta hundna eigi síðar en 20 sept. Þeir sem vilja frekari upplýsingar um sýningarnar, þjálfun eða reytingu er velkomið að hafa samband!
Sýning um helgina
Um helgina verður haldin alþjóðleg hundasýning á vegum HRFÍ. Sýningin fer fram að Klettagörðum 6. Þeir sem hafa áhuga á að koma og kíkja á Border terrierinn ættu að vera mættir á sýningarsvæðið rétt rúmlega 9 á sunnudagsmorgun, en dómur á að hefjast klukkan 9:44 en tímasetningin er aldrei alveg örugg.
Dagskrá sýningarinnar er aðgengileg hér!
Endilega látið sjá ykkur!
Styttist í sýningu
Já kæru vinir það styttist í sýningu. Þeir sem ætla að taka þátt þurfa að skrá sig fyrir 9. ágúst. Það er um að gera að vera með. Þeir sem að skrá og vilja fá leiðsögn um hvernig skal sýna hundinn, eða vilja fá hjálp við að finna sýnanda geta haft samband við mig.
Hér með fylgjandi eru myndir af Rökkurdís, Bosse og Pálínu sem tekin var um helgina: