Snuðra og Tuðra

Þann 12. desember 2019 fæddust 5 hvolpar hjá okkur. Því miður voru þrír hvolpar ekki tilbúnir til að taka þátt í dansinum hérna megin en tvær tíkur þær Snuðra og Tuðra ætluðu ekki að missa af partíinu og hafa verið virkilega sprækar frá fyrsta degi.

Það tekur á þegar svona gerist og kannski helsta ástæða þess hversu seint ég skrifa þessar línur hér.

Snuðra og Tuðra eru undan Rökkvu (Pálína x Fálki) og innfluttum rakka Multi ch. Musical’s Quattro. Þær hafa verið hreint dásamlegar. Ótrúlega skemmtilegir hvolpar og hafa tekið virkan þátt í fjölskyldulífinu hér á bæ. Dóttir mín Anna Louisa (18 mánaða) hefur passað upp á að þær séu vel umhverfisþjálfaðar og sá ekki sólina fyrir þeim. Það verður skrýtið fyrir hana þegar þær verða báðar farnar á nýtt heimili.

Skapgerðin hjá þeim báðum er mjög lofandi. Þær voru fljótar að fatta að gera stykkin sín á pappír sem hefur einfaldað lífið töluvert. Góa (Berger Blanc Suisse) sem er tæp 30kg hefur verið besta stóra systir/fósturmamma sem hægt er að hugsa sér og þær Rökkva ólu hvolpana upp saman. Það er magnað að sjá svona stóran klunna hund vanda sig sem mest hún má til að leika við og passa upp á hvolpana. Rökkva kunni henni líka vel hjálpina enda þægilegt fá stundum smá pásu frá beittum tönnum leikglaðra systra.

Við verðum vonandi með annað got áður en langt um líður. Þeir sem hafa áhuga geta sett sig í samband við mig í gengum joninasif@borderterrier.is – ef þið hafið þegar sent póst endilega gerið það aftur.

Bestu kveðjur,

Jónína Sif

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *