Hvolparnir stækka

Nú eru hvolparnir orðnir rúmlega þriggja vikna og aðeins farnir að horfa í kringum sig og aðeins farnir að ganga um þó þeir séu enn frekar klaufskir við það.

Því miður eru bara fjórir hvolpar eftir í hvolpakassanum, en þrátt fyrir mikila baráttu og vinnu þá náðum við því miður ekki að halda litla hvolpnum á lífi. Hún barðist samt eins og ljón en hún hefur verið of mikill fyrirburi og líffærin hennar því miður ekki nógu þroskuð til að hún gæti lifað. Þetta er í fyrsta sinn sem ég missi lifandi fædda hvolpa, það var mikill skóli að sinna þeim allan sólarhringinn leita allra mögulegra ráða við að halda þeim á lífi en stundum fer þetta víst svona.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir af hvolpunum. Því miður er ekki í boði fyrir þá sem eru ekki að fara að fá hvolp úr þessu goti að koma í heimsókn þar sem við viljum gjarnan halda öllum heimsóknum í lágmarki útaf Covid.

Enn eru einhverjir ekki búnir að fá lokasvar um hvort þeir fái hvolp en það er bara vegna þess að ég vil ekki negla neitt í stein alveg strax, þar sem ég vil sjá aðeins meiri karakter í hvolpunum áður en endanlegar ákvarðanir verða teknar.

Bestu kveðjur!

Hvolparnir búnir að opna augun

Þá er hvolparnir orðnir rúmlega tveggja vikna og búnir að opna augun. Það er þó þannig að hér hefur ekki allt gengið eins og í sögu. Hvolparnir voru flestir fæddir frekar litlir, enda komu þeir snemma í heiminn. Eins og við var að búast þegar svo er tók smá tíma fyrir þá alla að ná sér á strik. Fjórir af hvolpunum tóku fljótlega við sér og þegar þeir voru orðnir rúmlega viku gamlir var ég orðin vel sátt með gang mála. Hinsvegar voru tvær tíkur ekki að þyngjast eðlilega þrátt fyrir að vera að fá mjólk úr pela á 1,5-2klst fresti allan sólarhringinn.

Eftir mikla baráttu gafst önnur þeirra upp á sunnudaginn og því miður er ég ekki bjartsýn hin nái sér á strik þó svo ég haldi áfram að reyna á meðan það er enn einhver von.

Það eru auðvitað gífurleg vonbrigði og sorg þegar tveir hvolpar ná sér ekki á strik, en slíkt getur alltaf gerst og er því líklegast um að kenna að þær hafi ekki verið fyllilega þroskaðar, þar sem meðgangan var í styttra lagi.

Ég veit að það eru margir sem bíða eftir svörum, hvort þeir fái hvolp úr gotinu en í ljósi þessara breyttu aðstæðna þarf ég því miður að bíða aðeins með að svara fyrirspurnum og leggja mat á hvaða hvolpur fer á hvaða heimili.

Það er þó deginum ljósara að þessir fjórir sem eru hvað sprækastir ætla sér að verða heldur betur öflugir. Þeir eru á fleygiferð um kassan og drekka svo kröftulega að maður finnur til með mömmunni. Rökkva er hinsvegar eins og hún á kyn til alveg stórkostleg mamma. Það er unun að því að fylgjast með henni sinna hvolpunum sínum. Eðli og næmni þessara hunda fyrir móðurhlutverkinu er sannarlega magnað. Það er líka eins og hún skilji til hvers ég ætlast af henni þegar ég færi hana frá stóru hvolpunum og legg hana í annað bæli svo ég geti æft litlu hvolpana við spenan, hún leyfir mér að mjólk eins og ég get upp í þá og liggur svo hjá mér meðan ég gef þeim úr pela eða sprautu. Traustið sem hún sýnir mér og samvinnan á milli okkar við að koma þessum hóp á legg hefur verið dásamleg og það eru þessar stundir sem minnan mann heldur betur á það afhverju það er svona dámsamlegt að vera ræktandi, þrátt fyrir að það gangi ekki alltaf allt upp. Svefnlausar nætur og stanslaus vöktun hvolpana er bara hluti af þessu en verðlaunin eru að fá að fylgjast með þessum litlu lífum þroskast og dafna og þó svo að hvolparnir séu nánast alltaf fyrir framan mann, þá stend ég mig að því reglulega að kíkja í síman og skoða beina útsendingu sem ég er með í síman úr hvolpakassanum.Bestu kveðjur,

Jónína Sif

Hvolpar fæddir

Þann 27. des fæddust 6 hvolpar undan Rökkvu og Quattro, fimm tíkur og einn rakki. Þrír hvolpar voru Blue and tan og þrír Grizzle and tan. Rökkvu og hvolpunum heilsast vel. En þó hefur gengið hægt hjá sumum þeirra að þyngjast en það virðist vera á réttri leið núna.

Áhugi á tegundinni hefur farið vaxandi síðustu ár. Það hafa margir haft samband og óskað eftir hvolpi úr gotinu en við erum núna að fara yfir og hafa samband við þá sem eru á lista og hafa beðið hvað lengst. Ekki svo að skilja að það gildi eingöngu fyrstur kemur fyrstur fær. Við þurfum líka að taka mið af því hvaða eigendur/heimili gætu hentað fyrir einstaklingana í þessu goti.

Við vonumst eftir því að einhver þessara hvolpa muni láta til sín taka á sýningum, í hlýðni, agility og/eða við veiðar. Border terrierinn er neflilega ákaflega fjölhæfur hundur og við vonumst eftir því að hvolparnir fái heimili þar sem hæfileikar þeirra og kostir fái að njóta sín.

Bestu kveðjur,

Jónína Sif